iMac-skjár (24 tommu, M1, 2021, fjögur tengi)

Áður en hafist er handa

 Hætta

Lesið Rafmagnsöryggi áður en hafist er handa.

 Viðvörun

Lesið Brotinn skjár áður en hafist er handa.

Verkfæri

  • Límbandsskeri

  • Varahjól fyrir límbandsskera

  • Skjástandur

  • Etanólþurrkur eða IPA-þurrkur (ísóprópýlalkóhól)

  • Örfínn frotteklútur

  • Nemi úr næloni (svartur teinn)

  • Málningarlímband

  • Öryggisgleraugu

  • Sílikonlímrúlla

  • Stoðfleygar

 Varúð

Þetta ferli krefst kerfisstillingar. Eftir að öllum sundurhlutunar- og samsetningarskrefum er lokið skal athuga hvernig hefja á kerfisstillingarferlið.

Mikilvægt

Í þessu ferli þarf hugsanlega að skipta um límband á tengi fyrir sveigjanlegan skjákapal baklýsingar. Nýtt límband er innifalið í byrjunarpakka og áfyllingarpakka skjásins. Þetta er ekki aðskilinn íhlutur sem hægt er að panta.

Losun

 Varúð

Skjárinn er festur við húsið með límborðum. Hver límborði er með eitt frauðlag umlukið tveimur límlögum. Til að fjarlægja skjáinn skal nota límbandsskera til að skera límborðana. Þegar límborðarnir eru skornir er mest megnis verið að skera í gegnum frauðlagið. Ef skarð kemur í hjólið þarf að skipta um það.

Mikilvægt

Komið stoðfleygsstandinum fyrir miðju og hyljið rafmagnstengið áður en hafist er handa.

  1. Setjið stoðfleyginn á milli standsins og hússins eins og sýnt er. Gætið þess að fleygurinn sé fyrir miðju og rafmagnstengið hulið.

    • Athugið: Ef tölvan er með millistykki fyrir VESA-festingu skal láta tölvuna standa upprétta á skjástandinum.

  2. Stingið límbandsskeranum hornrétt á milli skjásins og hússins. Rennið límbandsskeranum þvert yfir efsta hluta tölvunnar og forðist þriggja tommu svæðið umhverfis myndavélina.

    •  Varúð: Til að koma í veg fyrir skemmdir á myndavélinni og skjánum skal ekki renna límbandsskeranum yfir myndavélina. Skipta þarf um skjá ef myndavélin skemmist.

  3. Leggið tölvuna á slétt yfirborð og látið skjáinn snúa upp. Rennið límbandsskeranum á milli skjásins og hússins á vinstri og hægri hlið.

    • Athugið: Ef tölvan er með millistykki fyrir VESA-festingu skal láta tölvuna liggja flata á VESA-stoðfleygnum. VESA-stoðfleygurinn er með ferningslaga útskurð fyrir millistykki fyrir VESA-festingu. Komið neðri hluta skjásins fyrir sem næst raufinni á fleygnum.

  4. Rennið límbandsskeranum á milli skjásins og hússins á neðri brún tölvunnar.

  5. Rennið límbandsskeranum fram og til baka á milli skjásins og hússins á öllum fjórum hliðum tölvunnar þar til hjólið hreyfist nánast hindrunarlaust.

    •  Varúð: Til að koma í veg fyrir skemmdir á myndavélinni skal ekki keyra límbandsskerann á þriggja tommu svæðinu umhverfis myndavélina.

  6. Stingið slétta enda svarta teinsins hálfa leið að hakinu inn á milli skjásins og hússins. Rennið svarta teininum upp og niður til að losa það sem eftir er af líminu.

    • Athugaðu:

      • Togið svarta teininn örlítið út ef viðnám finnst. Haldið síðan áfram að renna upp og niður og breytið dýpt innsetningar þar sem viðnám finnst.

      • Ef viðnám er enn til staðar skal hætta og fjarlægja svarta teininn. Setjið nýtt hjól í límbandsskerann og endurtakið skref 1 til 5.

      • Ekki nota svarta teininn til að snúa eða spenna upp eða stinga honum lengra inn en að hakinu. Sprunga getur komið á skjáinn ef reynt er að þvinga svarta teininn á milli skjásins og hússins.

      • Til að koma í veg fyrir skemmdir á myndavélinni skal ekki keyra límbandsskerann á þriggja tommu svæðinu umhverfis myndavélina.

  7. Snúið tölvunni þannig að efri hluti skjásins sé næstur ykkur. Ef skjárinn er losaður að fullu nær hann örlítið yfir efri brún hússins.

    • Mikilvægt: Þetta tryggir að skjárinn hafi losnað frá skjáhönkunum innan í húsinu.

  8. Haldið utan um skjáinn og lyftið honum varlega upp um 1 til 2 tommur.

    •  Varúð: Ekki strekkja á sveigjanlegu köplunum sem tengdir eru við móðurborðið og bakhlið skjásins.

  9. Setjið neðri hluta skjásins í raufina á stoðfleygsstandinum (1) og lyftið efri hlutanum varlega upp (2).

  10. Setjið báða þríhyrningslaga stoðfleygana inn í húsið eins og sýnt er.

    • Athugið: Notið VESA-stoðfleygsrauf og tvo þríhyrningslaga stoðfleyga fyrir gerðir sem stilltar eru með millistykki fyrir VESA-festingu.

  11. Flettið pólýesterfilmunni af sveigjanlegum kapli fyrir baklýsingu skjás (1) og geymið hana fyrir samsetningu. Togið endann á sveigjanlegum skjákapli baklýsingar beint niður og út úr tenginu (2).

  12. Opnið lásarma myndavélarinnar og tengjanna fyrir sveigjanlegan kapal innbyggðs DisplayPort (eDP) (1). Takið báða endana á sveigjanlegum eDP-kapli úr sambandi (2).

    • Athugið: Myndavélarkapallinn og sveigjanlegi eDP-kapallinn er sami kapallinn með þremur endum. Þriðji endinn tengist við móðurborðið.

  13. Lyftið skjánum af stoðfleygunum og setjið hann á skjástandinn.

  14. Flettið skjálíminu af brúnum skjásins.

    •  Varúð: Til að koma í veg fyrir skemmdir á pólýesterfilmunni á skjánum skal ekki fjarlægja límleifar af hornum skjásins.

  15. Notið etanólþurrku eða IPA-þurrku til að fjarlægja límleifar af brúnum skjásins. Látið yfirborðið þorna í a.m.k. 1 mínútu.

    •  Varúð: Ekki nota etanólþurrkur eða IPA-þurrkur framan á skjáinn eða til að fjarlægja neitt annað en límleifar.

  16. Flettið skjálíminu af brúnum hússins.

  17. Notið etanólþurrku eða IPA-þurrku til að fjarlægja límleifar af brúnum hússins. Látið yfirborðið þorna í a.m.k. 1 mínútu.

  18. Notið Kapton-límband til að festa sveigjanlegan kapal myndavélar og eDP og sveigjanlegan skjákapal baklýsingar við húsið.

Samsetning

 Varúð

Neðri límborðinn er mismunandi eftir gerð. Gangið úr skugga um að notaður sé réttur límborði fyrir gerðina sem gert er við.

  1. Leggið límborðana á sléttan flöt og athugið hvort þeir séu skemmdir og krumpaðir.

    • 946-25206 (1)

    • 946-25207 (2)

    • 946-25208 (3)

    • 946-18118 (4)

    •  Varúð: Skemmdir borðar geta valdið útlitsgalla og ljósleka. Samloðun skjásins og hússins getur einnig orðið veikari. Ef límborðarnir eru skemmdir eða krumpaðir skal skipta um þá.

    • Athugið: Límborðar skjásins eru með tvö lög af lími með frauðlagi á milli. Pappírsfilma er yfir borðanum á undirhliðinni og plastfilma er yfir honum á yfirhliðinni. Litirnir á filmunum geta verið mismunandi.

  2. Leggið húsið flatt niður eins og sýnt er. Flettið litlum pappírsfilmubút af einum límborða skjásins.

    • Athugið: Ef tölvan er með millistykki fyrir VESA-festingu skal láta tölvuna liggja flata á VESA-stoðfleygnum.

    • Mikilvægt: Bíðið með að fjarlægja plastfilmuna af límborða skjásins.

  3. Látið límborða skjásins flútta við samsvarandi brún á húsinu og þrýstið filmulausa hluta límborðans á húsið.

  4. Flettið pappírsfilmunni af í skrefum og þrýstið líminu á brún hússins þar til allur borðinn er límdur við.

  5. Endurtakið skref 2 til 4 til að líma hina límborða skjásins á.

  6. Skoðið hvernig límborði skjásins liggur. Gangið úr skugga um að engar krumpur eða innilokað loft sé til staðar.

  7. Snúið húsinu þannig að efri brúinn sé næst ykkur. Komið stoðfleygunum fyrir í húsinu eins og sýnt er.

  8. Flettið Kapton-límbandinu af sveigjanlegum kapli myndavélar og eDP og sveigjanlegum skjákapli baklýsingar.

  9. Setjið neðri brún skjásins í raufina á stoðfleygsstandinum. Hvílið skjáinn á þríhyrningslaga stoðfleygunum.

  10. Stingið tveimur endum á sveigjanlegum kapli myndavélar og eDP í tengin (1) aftan á skjánum. Lokið síðan lásörmunum (2).

  11. Stingið endanum á sveigjanlegum skjákapli baklýsingar í tengið aftan á skjánum (1).

  12. Festið límbandið yfir tengið fyrir sveigjanlegan skjákapal baklýsingar (2).

    • Mikilvægt: Ef límbandið skemmdist þegar það var losað frá skal fleygja því og nota nýtt límband.

  13. Lyftið efri brún skjásins örlítið. Fjarlægið þríhyrningslaga stoðfleygana úr húsinu.

  14. Takið skjáinn varlega úr raufinni á stoðfleygsstandinum (1). Leggið síðan efri brún skjásins á húsið (2).

    •  Varúð: Ekki strekkja á sveigjanlegu köplunum þegar skjárinn er færður til.

  15. Setjið flötu hlið skjásins á húsið. Efri brún skjásins á að hanga rétt yfir efri brún hússins.

  16. Setjið tvær ræmur af málningarlímbandi á neðri hluta tölvunnar til að festa skjáinn tímabundið við húsið.

  17. Haldið skjánum í flútti við húsið þegar tölvan er reist varlega upp. Skjárinn mun hliðrast örlítið til þegar hann krækist á hanka skjásins og samræmist við brúnir hússins

    • Athugið: Ef tölvan er með millistykki fyrir VESA-festingu skal láta tölvuna standa upprétta á skjástandinum.

    •  Varúð: Skjánum er aðeins haldið að hluta til á sínum stað með hönkum skjásins í húsinu. Haldið skjánum í flútti við húsið til að tryggja að skjárinn detti ekki af hönkunum.

  18. Gangið úr skugga um að skjárinn og húsið séu í réttri stöðu á öllum fjórum hliðum. Stillið síðan af tvær ræmur málningarlímbandsins svo þær passi vel yfir neðri hluta tölvunnar.

  19. Takið skjáinn rétt mátulega frá til að fjarlægja filmurnar af skjálímborðunum fjórum á efri hluta tölvunnar.

    •  Varúð: Ef skjárinn er dreginn of langt frá húsinu mun hann losna af hönkunum og gæti dottið úr húsinu.

  20. Þrýstið efst á skjáinn til að festa hann við límborðana á húsinu.

  21. Setjið tvær ræmur af málningarlímbandi á efri hluta tölvunnar til að festa skjáinn tímabundið við húsið.

  22. Fjarlægið tvær ræmur af málningarlímbandi af neðri hluta tölvunnar.

  23. Takið skjáinn rétt mátulega frá húsinu til að fjarlægja filmurnar af skjálímborðunum fjórum á neðri hluta tölvunnar. Byrjið nálægt miðju og flettið filmunum af í átt að hornum tölvunnar í þeirri röð sem sýnd er.

    • Athugið: Ef tölvan er með millistykki fyrir VESA-festingu skal láta tölvuna liggja flata á VESA-stoðfleygnum.

    •  Varúð: Ef skjárinn er dreginn of langt frá húsinu mun hann losna af hönkunum og gæti dottið úr húsinu.

  24. Þrýstið neðst á skjáinn til að festa hann við límborðana á húsinu.

  25. Gangið úr skugga um að allar hliðar skjásins og hússins flútti. Ef þær flútta skal endurtaka skref sundurliðunar og samsetningar.

  26. Fjarlægið tvær ræmur af málningarlímbandi af efri hluta tölvunnar.

  27. Takið filmuna af límdúknum. Rúllið sílikonrúllunni fram og til baka á límdúknum til að hreinsa hann.

  28. Rúllið sílikonlímrúllunni fram og til baka allar fjórar brúnir skjásins til að festa límborðana.

    • Athugið: Ef tölvan er með millistykki fyrir VESA-festingu skal láta tölvuna standa upprétta á skjástandinum.

  29. Hreinsið skjáinn með örfínum frotteklút.

  30. Fjarlægið stoðfleyginn.

 Varúð

  • Eftir að öllum sundurhlutunar- og samsetningarskrefum er lokið skal athuga hvernig hefja á kerfisstillingarferlið.

  • Kerfisstilling er nauðsynleg ef nýr skjár eða móðurborð var sett í.

  • Ef skipt var um móðurborð mun tölvan ræsa sig í greiningarham þar til kerfisstillingu er lokið.

  • Ef skipt var um skjá er ekki víst að birtustig skjásins og „Réttur tónn“ virki sem skyldi fyrr en að lokinni kerfisstillingu.

Birt: