Öryggi rafhlöðu í iPhone
Viðvörun
Þetta tæki inniheldur innbyggða endurhlaðanlega litíumjónarafhlöðu með mjúkum rafhlöðusellum. Öryggi rafhlöðu er það sem þarf helst að huga að þegar gert er við tæki með innbyggðri litíumjónarafhlöðu.
Aðeins tæknifólk með þekkingu, reynslu og verkfæri sem þarf til að gera við rafeindatæki ættu að skipta um rafhlöðu.
Mælt er með að nota aðeins nýjar rafhlöður. Notaðar rafhlöður geta skemmst þegar þær eru fjarlægðar.
Ef ranglega er staðið að skiptum á rafhlöðum, þær ekki meðhöndlaðar rétt, rafhlöður eru ekki tæmdar áður en viðgerð fer fram eða meðfylgjandi leiðbeiningum er ekki fylgt getur það valdið ofhitnun rafhlöðu, þrútnun, losun, leka eða varmatilviki. Þessi tilvik geta valdið eldsvoða, líkamstjóni, dauða, gagnatapi eða skemmdum á tækinu, íhlutum eða öðrum eignum.
Til að forðast þessi hugsanlega skaðlegu tilvik skal fylgja öryggisleiðbeiningum rafhlöðunnar og vinna á öruggu vinnusvæði með þeim verkfærum sem talin eru upp hér að neðan. Það er mikilvægt að vera undirbúin(n) fyrir allar mögulegar aðstæður.
Hvernig á að setja upp vinnusvæði með öryggi rafhlöðu í huga
Verkfæri
Hreinn, þurr og ómeðhöndlaður sandur (8–10 bollar)
Sandílát (stórt op, auðvelt að hella úr, óbrjótanlegt plastílát með opnanlegu loki)
Hitaþolnir hanskar
Hlífðargleraugu með hliðarhlífum
ESD-örugg hreinsilausn
Vinnusvæði þar sem gert er við Apple-tæki þurfa að uppfylla eftirfarandi skilyrði:
Vinnuborð sem er eldþolið og öruggt fyrir rafstöðuafhleðslu (ESD)
Að minnsta kosti 60 cm fjarlægð frá pappír og öðrum eldfimum efnum
Sandílát innan seilingar (60 cm) á báðum hliðum vinnusvæðisins, ekki yfir vinnusvæðinu
Fullnægjandi loftræsting
Hvernig á að bregðast við varmatilviki rafhlöðu
Viðvörun
Varmatilvik rafhlöðu er hröð efnakeðjuverkun sem á sér stað inni í rafhlöðusellu. Orkan í rafhlöðunni losnar skyndilega, sem getur valdið útgösun og eldi. Varmatilvik rafhlöðu getur orðið vegna efnislegra skemmda á rafhlöðunni, þegar rangt er staðið að skiptum á rafhlöðu eða viðgerðum eða vegna hitastigs sem er utan starfssviðs rafhlöðunnar.
Bregðast verður strax við ef einhverjar af eftirfarandi vísbendingum um varmatilvik koma í ljós:
Litíumjónarafhlaðan eða tæki sem inniheldur hana byrjar að gefa frá sér reyk, neista eða sót.
Rafhlöðupokinn blæs skyndilega út.
Litíumjónarafhlaðan eða tæki sem inniheldur hana byrjar að gefa frá sér hvæsandi hljóð eða smelli.
Kæfið rafhlöðuna eða tækið strax með miklu magni af hreinum, þurrum sandi. Hellið sandinum á öllum í einu. Tímasetning er mikilvæg - því hraðar sem öllum sandinum er hellt, því fyrr stöðvast tilvikið.
Hafið samband við slökkviliðsyfirvöld á staðnum ef þörf er á frekari aðstoð.
Farið út úr herberginu í 30 mínútur eftir að tilvikið hefur verið stöðvað. Loftræstið svæðið. Ekki snúa aftur á svæðið fyrr en allur reykur hefur verið ræstur út.
Bíðið í 30 mínútur áður en tækið er snert. Notið hitaþolnu hanskana og öryggisgleraugun með hliðarhlífum til að fjarlægja tækið úr sandinum.
Strjúkið yfir svæðið með vatni fyrst. Strjúkið svo yfir svæðið með ESD-öruggri hreinsilausn.
Fargið skemmdu rafhlöðunni eða tækinu (þar með talið rusli sem hefur verið fjarlægt úr sandinum) í samræmi við staðbundin umhverfislög og reglur.
Hvernig á að meðhöndla rafhlöður
Viðvörun
Afhlaðið rafhlöðuna að fullu áður en viðgerð er hafin. Afhlaðin rafhlaða er ekki eins viðkvæm fyrir varmatilviki. Ef ekki er hægt að skera úr um hleðslustöðu rafhlöðunnar skal ekki gera við tækið.
Farið í gegnum eftirfarandi skref til að afhlaða rafhlöðuna:
Aftengið alla utanáliggjandi kapla.
Fjarlægið öll hulstur og hlífar.
Kveikið á vasaljósinu á lásskjánum, í Control Center eða með því að biðja Siri. Bíðið þar til slökkt hefur verið á tækinu og ekki er lengur kveikt á vasaljósinu.
Varúð: Vasaljósið gefur frá sér hita. Geymið iPhone á vel loftræstu svæði þegar kveikt er á vasaljósinu.
Besta verklag
Til að forðast skaðlegar gufur eða varmatilvik rafhlöðu skal ekki gata, slá í eða kremja litíumjónarafhlöðu eða tæki sem inniheldur hana.
Ekki hafa aðskotahluti og beitta hluti á vinnusvæðinu.
Farið varlega þegar beitt verkfæri eru notuð nálægt rafhlöðunni.
Ekki skilja lausar skrúfur, aukaskrúfur eða litla hluta eftir inni í tækinu.
Ekki nota verkfæri sem leiða rafmagn.
Ekki kasta rafhlöðunni eða missa hana.
Ekki láta rafhlöðuna verða fyrir miklum hita eða sólarljósi eða hitastigi sem er utan starfssviðs rafhlöðunnar.
Meðhöndlið og fargið ónýtum rafhlöðum í samræmi við staðbundin lög og reglur.