iPhone, inngangur

Þessi handbók inniheldur tæknilegar leiðbeiningar um hvernig skuli skipta um upprunalega Apple-varahluti í iPhone og er ætluð tæknimönnum með þekkingu, reynslu og verkfæri sem þarf til að gera við rafeindatæki.

Mikilvægt

  • Lestu alla handbókina áður en lengra er haldið. Ef þú treystir þér ekki til að framkvæma viðgerðir samkvæmt leiðbeiningunum í þessari handbók, skaltu ekki halda áfram.

  • Notaðu alltaf nýjustu útgáfuna af þessari handbók sem finna má á support.apple.com/en_US/manuals/iphone.

  Viðvörun

Ef viðgerðarleiðbeiningunum er ekki fylgt eða upprunalegir varahlutir frá Apple eða rétt verkfæri ekki notuð getur það valdið bruna eða öðrum öryggisvandamálum og leitt til líkamstjóns eða dauða.

 Varúð

Ef viðgerðarleiðbeiningunum er ekki fylgt eða upprunalegir varahlutir frá Apple eða rétt verkfæri ekki notuð getur það skemmt iPhone, íhluti eða aðrar eignir, eða skaðað virkni tækisins eða vatnsheldni.

Upplýsingar um ábyrgð

Skemmdir af völdum viðgerða sem ekki eru framkvæmdar af Apple eða viðurkenndum þjónustuaðila Apple heyra ekki undir ábyrgð Apple eða AppleCare-áætlanir. Slíkar skemmdir geta valdið því að það þurfi að greiða fyrir viðgerðir og þær séu utan ábyrgðar eða orðið til þess að ekki verði hægt að gera við tækið hjá Apple eða viðurkenndum þjónustuaðilum Apple.

Verkfæri og varahlutir

Verkfæri

Verkfæri frá Apple eru hönnuð til að þola viðeigandi hita, afl og átak við viðgerðir og til að þola mikla notkun.

  • Upphitaði búnaðurinn til að fjarlægja skjá mýkir límið þannig að hægt sé að ná skjánum af hulstrinu. Búnaðurinn er notaður með upphituðum skjávasa sem er hannaður sérstaklega með stærðir tækisins í huga.

  • Skjápressan setur nægilegan þrýsting til að nýtt lím nái að taka sig við ísetningu á skjá. Skjápressan er notuð með viðgerðarbakka og skjálímpressuplötu sem eru sérstaklega hönnuð með stærðir tækisins í huga.

  • Rafhlöðupressan setur hæfilegan þrýsting til að nýtt lím nái að taka sig við ísetningu á rafhlöðu. Rafhlöðupressan er notuð með viðgerðarbakka sem er hannaður með tilteknar stærðir tækisins í huga.

Pantanir á verkfærum og varahlutum

Þú getur fengið að vita hvernig á að panta upprunalega varahluti og verkfæri frá Apple á support.apple.com/self-service-repair. Við kaupin skal slá inn auðkenni handbókarinnar sem finna má neðst á efnissíðunni til að sýna að þú hafir lesið alla þessa handbók og staðfestir að þú hafir þekkingu og reynslu til að sinna fyrirhugaðri viðgerð.

Hugbúnaðarverkfæri

Kerfisstilling gæti verið nauðsynleg þegar viðgerð er lokið. Kerfisstilling (System Configuration) er hugbúnaðarverkfæri sem er notað að lokinni viðgerð á ósviknum íhlutum frá Apple til að ljúka viðgerðinni. Kerfisstilling hefur margvíslegan tilgang sem er mismunandi eftir því hvaða varahluti verið er að skipta um.

Kerfisstilling fyrir TrueDepth-myndavél er notuð eftir viðgerð á TrueDepth-myndavél.

Það sem kerfisstilling gerir

Hvers vegna þetta er mikilvægt

Flytur verksmiðjustillt kvörðunargildi

Ákveðnir varahlutir á borð við skjái, myndavélar og skynjara fyrir umhverfislýsingu hafa sín kvörðunargildi sem eru sérsniðin fyrir hvern einstakan varahlut við framleiðslu. Flutningur á þessum gildum tryggir hámarksvirkni og gæði eftir viðgerð.

Tengir Secure Enclave við lífkennisannvottunarhluti

Eftir viðgerðir á móðurborði eða lífkennisannvottunarhlutum (snertiauðkenni  eða andlitsauðkenni ), þarf að tengja lífkenniskynjara við Secure Enclave á móðurborðinu til að tryggja öryggi tækisins.

Tryggir heilleika viðgerða

Eftir viðgerðir á vélbúnaði eru athuganir á hugbúnaði framkvæmdar til að tryggja heilindi viðgerðarinnar. Heilindi viðgerðar þýða að upprunalegur varahlutur frá Apple hafi verið réttilega settur í.

Úthlutar þráðlausu svæði

Til að uppfylla reglur um samskipti verður að úthluta móðurborðinu þráðlausu svæði.

Uppfærir fastbúnað

Ef fastbúnaður er uppfærður hefur tækið alla nýjustu öryggisvirkni og afköst.

Kröfur um kerfisstillingu

Á meðal lágmarkskrafna fyrir kerfisstillingu eru:

  • Nýjasta útgáfan af iOS - ekki prófunarútgáfa - á iPhone

  • Öflug Wi-Fi-tenging með 1,0 Mbps niðurhals- og upphleðsluhraða, með minna en 400 ms biðtíma og minna en 2% pakkatapi. Áætluð gagnanotkun við að keyra kerfisstillingu er 6–22 MB.

Ef það er skipt um TrueDepth-myndavél krefst kerfisstilling einnig:

  • Mac-tölvu með nýjustu útgáfu af Apple Service Utility uppsetta. Þú þarft líka að setja upp „iPhone Repair – TrueDepth Camera Resources“ í Apple Service Utility Resources-glugganum.

  • Internetaðgangs fyrir Mac

  • Lightning-snúru fyrir iPhone 14 og eldri eða USB-C hleðslusnúru fyrir iPhone 15

Hvernig á að hefja kerfisstillingu

Þú hefur kerfisstillingu með annarri af tveimur eftirfarandi aðferðum en það fer eftir varahlutnum sem skipt var um:

eða

Sjáðu viðkomandi viðgerðarkafla í þessari handbók til að fá frekari upplýsingar.

Viðvaranir

Ef viðvörunum er ekki sinnt getur það leitt af sér eldsvoða, líkamstjón, gagnatap eða skemmdir á tækinu, varahlutum eða öðrum eignum.

Viðvörun

Leiðbeiningar til að draga úr hættu á líkamstjóni

Varúð

Leiðbeiningar til að draga úr hættu á gagnatapi eða vélbúnaðarskemmdum

Mikilvægt

Viðbótarupplýsingar til að framkvæma aðgerðir á árangursríkan hátt; hvorki viðvörun né varnaðarorð

Birt: